Lykilatriði frjálshyggjustjórnunar.

Uppá síðkastið, meðan hrunadans frjálshyggju-stjórnkerfis vesturlanda heldur sínu striki, hef ég reynt að leiða hugann í heimspekilegar vangaveltur um hvernig stjórnkerfi þrífast og hverju þeir sem þar ráða, beita til að halda andliti gagnvart borgurunum, og þar með til að halda völdum.

 Öll könnumst við við upphaf og endi ýmissa stjórnkerfa síðustu alda, t.d kommúnisma Austur Evrópu, eða  Þriðja ríkis Hitlers, og vitum að þar var ýmsum ófögrum meðulum beitt til að koma böndum á almúgann. Í stjórnkerfi samfélags þurfa jú að vera tiltæk ráð til að  fá almenning til að sætta sig við ástandið.

Eftir að hafa fylgst náið með aðferðum valdhafa (auðvaldshafa) vesturlanda, síðustu mánuði hef ég áttað mig á því hvernig einn þáttur virðist vera sameiginlegur öllum stjórnkerfum, en það er lygin og fegrunin.

Lygin og fegrunin virðast vera svo nauðsynleg öllum valdhöfum að ekkert stjórnkerfi, land , lndsvæði virðist geta komist af án svona vinnubragða, og þá allra síst þegar kreppir að hugmyndafræðinni sem viðkomandi hefur boðað.

Það er í raun talsvert broslegt þegar maður hugsar út í hve lífsnauðsynleg lygin og fegrunin er þeim Geir H Haarde, Róbert Mugabe eða Kim Il Sung , og svo auðvitað óteljandi öðrum valdhöfum vítt um heim.

 En höldum okkur heima við og rifjum upp nokkur atriði.

Sennilega hefur engin lengur tölu á þeim skiptum sem forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar hefur komið fram í fjölmiðlum og tilkynnt okkur almúganum að hér sé allt í góðu og þessar smávægilegu þrengingar sem nú ganga yfir verði úr sögunni á næstu mánuðum. Síðast í gær tjáði þessi ábyrgðarfulli rólyndismaður okkur að gjaldþrot Leman Brothers og AIG kæmi ekki til með að hafa nokkur áhrif hér á landi. Allir fréttamenn hlustuðu andaktugir á eintalið og ekki virtist nokkur þeirra láta hvarfla að sér að benda manninum á að allt síðastliðið vor talaði hann um að þessum þrengingum linnti í haust og allt færi i samt lag og áður.  Nú er haustið komið og öllum þrengingunum á að linna í síðasta lagi í byrjun næsta árs, þegar áhrifanna af þessum vandamálum erlendis hættir að gæta.

Utanríkisráðherrann okkar staldraði augnablik við um daginn og gaf sér tíma til að fara í viðtal hjá Viðskiptablaðinu. Ekki vantaði fyrirögnina. "Hér er engin kreppa". Í löngu viðtali var tíundað hve stutt væri í að allt kæmist hér í samt lag og engin þyrfti að hafa áhyggjur af nokkrum hlut.

Allir leggjast á eitt. Þ.e.a.s þeir sem hagsmuna hafa að gæta. "Valdhafarnir" í víðum skilningi. Í Viðskiptablaðinu var viðtal nýlega við forstjóra steypustöðvar. Steypustöð þessi er nýlega endurreist flak , gjaldþrota samsteypu sem einn viðskiptabankanna hirti á meðan skuldir þrotabúsins lentu á byrgjum og jafnvel viðskiptavinum. Allt var í lukkunnar hjá manninum. Að vísu áttu þeir nýbyggðar íbúðir til næsta 18 mánaða en þar sem húsnæðismarkaðurinn er nú rétt í þann mund að rúlla af stað aftur, þá er það ekkert til að tala um. Framundan bara eintóm hamingja.

 Og fjölmiðlarnir, úff. Enn er lapið upp úr sama rugludallaliðinu sem ekki hefur undan að éta ofan í sig fyrri þvælu. Greiningadeildirnar, bankastjórinn sem í janúar tjáði okkur það álit sitt að hlutabréf myndu hækka um 20% á árinu, forstjóri steypustöðvarinnar sem ekki einu sinni virðist gera sér grein fyrir því að hræið sem hann stjórnar var endurvakið með því að láta aðra drukkna, ráðherrarnir sem fljótlega munu tjá okkur, í þriðja skipti á árinu,  að þeir bara trúi því ekki að bankarnir séu að láta krónuna falla, og jafnvel stjórnarformaðurinn sem keypti svo verðlaust fyrirtæki að 12 mán seinna  tók því ekki lengur að hafa það á bókum félagsins,  enginn virðist vera það ómerkilegur pappír að ekki taki því að leyfa honum að tjá sig, og það helst á nokkurra íþyngjandi spurninga.

Framkoman við okkur almenning er á þann veg að viðkomandi telji okkur fífl. Á meðan allt hagsmuna stóðið keppist um að þvaðra hvert upp í annað, og lepja þvæluna hvert eftir öðru , þá situr þjóðin hálf hvumsa hjá og segir fátt. Horfir á skjáinn og hefur ekki brjóst í sér til að segja beint út "Geir við vitum að þú ert að ljúga" þó við hugsum það öll einhverstaðar djúpt í meðvitundinni. Og við sjáum falska glampann í  augunum á Ingibjörgu á dagblaðssíðunni og hugsum það sama.

Trúverðugleiki almennings er í góðu lagi. Fólkið í landinu hefur gengist við því að hafa farið offari í kaupgleði og eyðsluæði undanfarin ár. Gerir sér grein fyrir að nú sé komið að afborgunum og að þær verði sársaukafullar.

En annað má segja um stjórnendur viðskiptalífs og þjóðfélags. Með linnulausum lygum og fegrunaraðgerðum skapa þeir sér hratt vaxandi fyrirlitningu fólksins. Háðið í umræðunni fer ekki fram hjá nokkrum sem fylgist með fjölmiðlum götunnar. Blogg, heitir pottar og kaffistofur óma af slíku tali.

Furðulegur þessi skortur á valdhafavirðingu á Íslandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér um bil allir eru hættir að trúa.

Nema þeir sjálfir.

Sumt fréttafólkið er svo meðvirkt í þessu, að það vill ekki heyra hvað fór úrskeiðis, aðeins hvað á að gera. (Sjúklingurinn vill ekki vita hvers vegna hann er veikur, aðeins hvaða töflu á að taka.) 

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband