Enn eitt glapræðið....

....frá gjörsamlega veruleikafirrtum stjórnvöldum.

Sú tilraun stjórnvalda sem líklega er nú í uppsiglingu að setja íslensku krónuna á flot og freista þess að koma af stað viðskiptum með hana á frjálsum markaði, er sennilega sú brjálæðislegasta sem upp hefur komið lengi. Er þó af nógu að taka.

Miðað við vaxtahækkun Seðlabankans og yfirlýsingar stjórnarliða undanfarið er ekki annað að sjá en til standi að gera slíka tilraun. Meira að segja hafa ráðamenn sett fram setningar eins og að "endurreisa trú " og "skapa traust" á íslenska krónu. Þrátt fyrir allar augljósar staðreyndir og niðurstöðu fyrri slíkra tilrauna ( samanber tilvitnun Lilju Mósesdóttur hagfræðings í örlög S- Kóreu) virðist firringin og staðreyndablindnin vera slík að engu viti verði komið fyrir Ríkisstjórn Íslands. Enda kannski ekki við slíku að búast eftir það sem sést hefur til þeirra síðustu vikur.

Til að trúa því að nokkurtímann framar verði hægt að fá nokkurn íbúa þessarar jarðarkúlu til að treysta íslenskri krónu, þarf fólk einfaldlega að vera algjörlega galið. Slík tilraun mun setja á hausinn þann hluta þjóðarinnar sem ekki varð gjaldþrota við vaxtahækkun Seðlabankans nýlega.

S-Kórea er iðnríki með miljónir íbúa, sem þar að auki átti í verulega minni hremmingum, en við í dag, ef miðað er við landsframleiðslu þjóðanna. Þegar þessi flottilraun var gerð þar féll gjaldmiðill þeirra strax um 49%. Hvaða viti borinn maður trúir því að það sama gerist ekki með íslensku krónuna, þegar ástandið í samfélaginu er þannig að fólk bíður í startblokkunum eftir að geta skipt krónum sínum í verðmæti. Sú staðreynd að gjaldeyrir er einfaldlega ekki til í landinu er einna ástæðan sem stoppar fólk af.

Ef menn, af pólitískum rétttrúnaði, geta ekki viðurkennt að leita þarf strax undir verndarvæng EVRU og þar með Seðlabanka Evrópu og freista þess að tengja krónuræfilinn þar fastan, þar til hægt verður að taka upp gjaldmiðil sem er einhvers virði, þá er nú að verða óhætt að endurhugsa hugtakið landráð.

Ekki svo mikið sem eitt sent verður til umráða á íslandi næstu árin, umfram þann gjaldeyri sem íslensk þjóð fær fyrir vörusölu sína erlendis. Þá staðreynd er bara best að viðurkenna strax og sætta sig við gjaldeyrisskömmtun í 1970 stíl, eins og verið hefur síðustu vikur.

Tími staðreynda hlýtur að fara að renna upp og þar með tími draumóra að líða undir lok.

Vonum það allavega, þjóðarinnar vegna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að þetta sé ákveðið mál, að setja krónuna á flot. En það er glapræði, tek undir það.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband