Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Neðsti múrsteinninn í píramída á hvolfi?

 Síðustu vikur hef ég velt fyrir mér hvort AIG sé sú litla þúfa sem frjálshyggjukerfi heimsins hangir enn á. Ef hún bresti, þá fari þunga hlassið á óstöðvandi lóðrétt flug, niðurávið. Það dylst sennilega ekki nokkrum manni að hagkerfi Vesturlanda er í dauðateygjunum. Dýpt heimskreppunnar sem á eftir fylgir fer svo eftir því hvernig mönnum tekst að spila úr hlutunum, og það nauðsynlegasta til að spila rétt er að gera sér grein fyrir ástandinu.

 Allt hagkerfi Vesturlanda er keyrt áfram á hugmyndafræði kapítalisma og frjálshyggju. Allar  stofnanir, allt frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum, ríkisstjórnum og niður í  skilanefndir íslensku bankanna, vinna eftir þeirri hugmyndafræði að þannig skuli það vera. Sumir fylgja stefnunni vegna öfgatrúar en aðrir vegna þess að þeir þekkja ekkert annað. Stefnan er það sem almennt er viðurkennt, eins og Gunnar Tómasson hagfræðingur orðaði það.

 Allir hagsmunaaðilar á Vesturlöndum, þar með talinn Sjálfstæðisflokkurinn á íslandi, standa í ströngu við að afneita ástandinu. Með ályktun sinni um að ekkert hefði brugðist í stefnunni, heldur hefði ákveðnir einstaklingar klikkað, þá gaf hann okkur kjósendum í raun út þá stefnu sína að haldið skuli áfram á sömu braut og áður og allt byggt upp að nýju, með sama sniði og var. Uppgjörið við fortíðina er ekkert og allt gert til að klína ástandinu á ákveðna einstaklinga, sem eru að hætta í forystusveit flokksins hvort eð er.

En snúum okkur að AIG, holdgervingi þess kerfis sem nú er í andaslitrunum. Á þeim bæ tryggðu menn allt sem hugsast gat, og mest aðra fyrir mögulegu tapi. Tap er nokkurn veginn að eina sem hægt er að ganga að vísu næstu misserin. Það gefur því auga leið að fyrirtækið er algjörlega dauðadæmt, í raun dautt nú þegar og við verðum að snúa okkur að hinni hliðinni til að draga ályktanir um framhaldið.

 Bandarísk stjórnvöld eiga nú þegar 80% hlut í félaginu. Miðað við ný upplýst heimsmet í ársfjórðungstapi er mög líklegt að innan skamms verði félagið tekið að fullu. Og þá er spurning hvort bandaríska ríkið verði ábyrgt fyrir þeim fjárhæðum sem greiða þarf út til tryggingataka. AIG starfaði ekki bara á bandarískum markaði, þannig að þar á bæ eru menn ábyrgir fyrir óhugnanlegum fjárhæðum um allan heim.

 Niðurstaðan er því einföld. Tvær leiðir eru í stöðunni. Önnur að láta félagið falla ,eða réttara sagt tilkynna þeim sem tryggðu sig hjá félaginu að þeir megi bera tap sitt sjálfir, (AIG er auðvitað gjaldþrota) og hin leiðin að velta gríðarlegum fjárhæðum yfir á bandarískan almenning í formi skatta. Þá er hætt við að hin fögru fyrir heit leiðtoga heimsins, um að nú verði að standa saman og enginn megi loka sig af í sínu horni, gufi upp. Stór hluti þessara skattaálaga mun fara í að greiða erlendum aðilum bætur og við sem sáum hvað lítið atvik eins og ICESAVE gat komið af stað hörðum viðbrögðum, gerum okkur grein fyrir hverjar afleiðingarnar af slíku gætu orðið.

 Mín niðurstaða er einfaldlega sú að AIG sé dauðadæmt. Ég sé ekki að skattgreiðendur í Bandaríkjunum sætti sig við að borga brúsann. Ég sé ekki að almenningur í Bandaríkjunum ráði við að borga brúsann. Þegar það verður tilkynnt mun ný dýfa fara í gang. Þjóðarleiðtogar vesturlanda munu halda enn fleiri ráðstefnur og gefa í framhaldi af þeim út enn fegurri fyrirheit. Sérfræðingar munu tilkynna okkur nýjan tímapunkt á lokum niðursveiflunnar, og svo verður smá pása þar til næstu ótíðindi birtast.

Með þessu móti tekst að treina niðursveifluna í nokkur ár. Neita að horfast í augu við staðreyndir og ákveðnum stjórnmálaöflum tekst kannski að halda andlitinu aðeins lengur. Jafnvel fram yfir nokkrar kosningar.

 En raunveruleikinn er alltaf sá sami. Hagkerfi vesturlanda gengur ekki upp. Kapítalisminn og Frjálshyggjan eru kerfi sem geta ekki gengið, og ástæðan er algjör feill í grunn hugsuninni. Fyrir löngu hentu menn fyrir róða, tengingu peninga við raunverðmæti og uppskera nú hagkerfi sem er uppskrúfarð 20 til 30 falt. Það skiptir í raun engu hvort er, eða hvort einungis sé um 10 földun að ræða. Eini munurinn er sá að afskrifa þarf 9/10, 19/20 eða 29/30. Allir sjá að það skiptir engu hvert er.

 Reiknaður hagvöxtur þjóða og vaxtareikningur á fjármagni er höfuðástæða þess að ég tel að nútíma hagfræði gangi ekki upp. Ég fer ekki út í það nánar núna en til að byrja með, vil ég benda á frábæra grein sem ég rakst á. Hún er góð til að hugsa hagfræði upp á nýtt, alveg frá grunni.

Farið inn á  http://hjalli.com/2009/02/07/timi-storra-breytinga/  og lesið þessa grein. Hún er frábær.

 


mbl.is AIG í raun vogunarsjóður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsmet í valdahroka.

 Það er alveg svakalegt að fylgjast með ummælum Sjálfstæðismanna þessa dagana. Eiginlega er maður farinn að halda að þetta sé alls ekki pólitískt valdatafl heldur trúi þeir bara í alvöru að svona séu hlutirnir. Við höfum öll séð talsmenn stjórnmálahreyfinga halda fram ágæti síns flokks en svona hroki getur ekki stafað af öðru en raunverulegri trú á að allt sé í fínasta lagi og ekkert aðfinnsluvert við stefnu og framferði þeirra síðustu 18 árin.

 En hvernig getur lið sem stjórnað hefur þjóðinni síðustu 18 árin, gert annanhvern landsmann gjaldþrota í eigin hagkerfi og þjóðina algjörlega gjaldþrota í hagkerfi heimsins, hegðað sér eins og enginn sé betur fallinn til forystu, aðrir en þeir. Og því til viðbótar eru þeir málefnalega gjaldþrota sjálfir, þar sem stefnan sem þeir hafa boðað og framfylgt síðustu árin er hrunin á heimsvísu.

 Þeir gátu ekki gefið eftir forsætisráðherra embættið vegna þess að þeim fannst að stærsti flokkurinn ætti að fara með það. Þeir meira að segja töldu að ef til þjóðstjórnar kæmi þá væri enginn betur fallinn til forystu aðrir en þeir.

 Stundum var ég farinn að halda að þeim væri ekki alvara, væru farnir að grínast með þeim erlendu aðilum sem hæða þjóðina fyrir að sitja uppi með sama liðið og setti hana á hausinn, mánuðum samann.

 Að sitja í efnahagsöskuhaug brunarústa eigin gerða og hafa af því áhyggjur að þeir sem  við taki klúðri ríkisfjármálunum hlýtur að vera sönnun fyrir verulegum skorti á raunveruleikaskini.

Algjör firring.
mbl.is Geir óttast sundrung og misklíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja við!

 

 Einu sinni var ég frekar andvígur EU en svosem enginn öfgamaður í því.  Eitt kvöld fyrir framan TV fréttirnar snérist ég algjörlega á einni mínútu. Ástæðan var sú að maðurinn sem var að tala kom með þau mögnuðustu rök fyrir inngöngu okkar Íslendinga í EU sem ég hef heyrt, og því að taka upp EURO sem reyndar þá var bara gjaldmiðill í undirbúningi.                   Það rann upp fyrir mér ljós.

Maðurinn sagði svona u.þ.b orðrétt.

"Við verðum að átta okkur á því að ef við göngum í EU þá missa íslensk stjórnvöld allveg yfirráðin yfir íslenskum efnahagsmálum og geta ekkert  gert til að hafa áhrif á framgang þeirra".

Ég sat lengi huXi því á sömu sekúndunni rann upp í huga mér "hvað gæti betra komið fyrir íslenskan almenning".

Og þetta var þáverandi forsætisráðherra og núverandi Seðlabankastjóri sem var að tala.

Mergurinn málsins er sá að það erum bara við almúginn sem sitjum uppi með ónýta krónu og allar hennar afleiðingar. (og smáfyrirtækin) Þeir sem eiga eitthvað undir sér eru löngu komnir með allt sitt á hreint í erlendri mynt. Erlenda lánið mitt varð ég að taka gegnum íslenskan banka, bara til þess eins að borga honum þóknun fyrir viðvikið.

Við erum sem þjóð búin að sitja uppi með stjórnvöld áratugum saman sem hafa ekkert vit, eða getu, til að stjórna efnahagsmálum á þann veg að við hefðum sambærilega lífsafkomu og þjóðirnar næst okkur. Allavega hafa þeir ekki haft viljann, eða þá að samsæriskenningar sumra séu réttar og stjórnvöld hafi meir áhuga á að þjóna öðrum en þjóðinni.

Formaður Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis sagði til dæmis í haust þegar EURO-upptöku umræða var í fjölmiðlum að hann væri ekkert viss um það að lægri vextir hentuðu íslendingum eins og staða efnahagsmála væri. Og þetta er einn af kjörnu fulltrúunum okkar.

Seðlabankinn baslast við að hækka vexti til að hægja á umsvifum í hagkerfinu en virðist ekki hafa vit til að átta sig á að peningarnir sem valda þenslunni eru innflutt fé sem þeir hafa ekkert með að segja. Okurvextirnir lenda bara á okkur almenningi, venjulegu fjölskyldufólki sem lítur ekki daglega á fasteignaverðið til að sjá hver "eignaaukningin "hefur verið, því við notum húsin/íbúðirnar bara sem þak yfir fjölskylduna. Á meðan heldur bygging ráðstefnu og tónlistarhallar áfram(ásamt öllu hinu) og þeir aðilar fara ekkert upp í Seðlabanka til að spyrja hvað má, þó stutt sé á milli.

Eða hefur einhver fréttamaður spurt á blaðamannafundum Seðlabankans (á vaxtabreitingadegi) hvort þeir í Seðlabankanum séu vissir um að peningarnir sem þeir eru að hækka vextina á séu sömu peningarnir og valda þenslunni.

Mín niðurstaða er því sú, eftir að hafa rennt huganum yfir ástand mála síðustu áratugi, að það besta sem þjóðinni gæti hlotnast sé að lostna undan áþján misvitra íslenskra stjórnmálamanna.

Það er eiginlega aumkunarvert að horfa upp á mann, berjast við að halda aftur af ofþenslunni, sem er til komin vegna slælegrar efnahagsstjórnunar hans sjálfs í fyrra starfi.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband