27.4.2008 | 11:29
Sigling þjóðarskútunnar.
Enn er sami kúrsinn. Stefnunni haldið óbreyttri þó allir viti að framundan er þverhnípt bjargið og þar fram af ótal sker og boðar sem sveigja þyrfti framhjá. Brymið lemur bæði boða og bjarg og bíður skútunnar. Skipstjórinn og stýrimaðurinn virðast nokkuð sammála um að halda óbreyttri stefnu og ferð. Samkvæmt siglingareglum eiga þeir sem eiga réttinn að halda ferð og stefnu óbreyttri, svo hinn sem á á víkja geti ákveðið sínar aðgerðir út frá þeim forsendum. Það kostar samt oft neyðarviðbrögð þess fyrrnefnda, geri hinn ekkert í málinu. Ríkisstjórn Íslands telur sig eiga réttinn gagnvart bæði skerjunum og bjarginu.
Í vélarúminu situr vélstjórinn og skipar kyndurunum að moka meira og hraðar. Jafnvel þó ganghraðinn hafi aldrei verið meiri. Vélarnar eru úttútnar, á yfirþrýstingi, og eiga ekkert eftir nema springa út eins og ísskápur í Vesturbænum. Allur búnaðurinn á dekkinu er að hætta að virka vegna yfirkeyrslu aðalvélarinnar. Þrýstingur á glussakerfi og spennan á rafmagninu eru að ganga frá öllum tækjum og tólum sem hásetarnir nota við vinnu sína.
Einstaka háseti er farinn að tuða. Nokkrir hafa tekið sér stöðu í hurðaropum og sest í stigana og neitað að hleypa öðrum framhjá. Þeir kvarta þó ekki yfir stefnunni á skútunni, þó þeir sitji stundum fram í stefni og horfi á bjargið nálgast. Nei, nei, þeir vilja fá hengirúm á dekkið svo þeir geti lagt sig á daginn og finnst verðið á myglaða mjölinu vera orðið allt of hátt.
Skipstjórinn og stýrimaðurinn fara oft á léttabátnum yfir í hin skipin sem eiga leið hjá, en stefna allt annan kúrs. Léttabáturinn er í töluverðri notkun. Skipstjórinn hefur þó alltaf á sér eyrnahlífar í slíkum ferðum. Honum leiðist umhyggjusamt tuldur annarra skipstjóra , hvort við viljum ekki frekar fylgja flotanum sem reynir að beygja frá bjarginu. Eyrnahlífarnar fékk hann lánaðar hjá vélstjóranum, vélstjórar eiga yfirleitt mikið af eyrnahlífum.
Talstöðin er þannig stillt að búið er að lækka niður í hátalaranum. Þá er hægt að kalla og senda boð í hin skipin, og bjóðast til að taka sæti í forustusveitinni, en það heyrist ekkert sem sent er til baka. Aðvörunarorð frá hinum skipunum um slæma stefnu voru orðin leiðinleg og oftast bara illgjarn áróður.
Neðan úr neðstu lestinni eru þó farnar að heyrast háværar kröfur um að það þurfi að breyta einhverju. Jafnvel tillögur um að fylgja stóra skipaflotanum sem er rétt hjá og stefnir í aðra átt. Fara bara aftast í röðina hjá þeim og fá þar skjól fyrir veðri og vindum. Þeir hafi líka farið þessa leið í mörg hundruð ár.
En stýrimaðurinn nær engu sambandi við skipstjórann, svo þykk eru eyrnaskjólin. Skipstjórinn er líka trúaður maður og veit að einhvernvegin mun hann komast yfir það sem framundan er, skítt með hvernig hásetunum reiðir af. Þeir í neðstu lestinni munu kannski fara illa þegar botninn fer úr skipinu á skerjunum en hann er ekki þar niðri. Hans staður er mikið ofar og skipið afturbyggt, þannig að hann verður ekki heldur fyrir hnjaski í árekstrinum við bjargið.
Skipstjórinn hefur líka öruggan stuðning vélstjórans. Vélstjórinn hefur hótað að ef vælukórinn haldi sig ekki á mottunni muni hann skipa kyndurunum að moka enn meira og hraðar, kolunum í katlana.
En við skríllinn eigum þó enn von. Við eigum alltaf von. Þeir á stóra skipaflotanum eiga langan kaðal og eru ekkert svo langt undan. Í raun undarlegt hvernig bilið minnkar jafnt og þétt þó stefnt sé í sitt hvora áttina. Að lokum munum við biðja þá að koma til okkar með endann á kaðlinum, Það verður þegar allur búnaðurinn um borð hjá okkur verður brunninn yfir og úrbræddur og aðalvélin sprungin.
En það væri nú skemmtilegra að koma siglandi til hafnar með hinum skipunum, fyrir eigin vélarafli.
Athugasemdir
Raunsönn og góð lýsing hjá þér! Fæstir þeirra hafa reyndar migið í saltan sjó en stefnan og "ákvaraðanaleysið" hefur komið þjóðarskútunni þangað sem hún er. En kannski megum við þakka fyrir að ekkert þeirra lagði það fyrir sig að skipstjórnamenntast og stunda sjóinn. Strönd og mannskaðar hefðu líklega orðið fleiri. Þó að stefna þeirra stuðli að gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga má líklega þakka fyrir hitt, þ.e. að mannskaðarnir urðu líklega færri.
Hagbarður, 27.4.2008 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.