7.10.2008 | 12:11
Brunaútsala á erlendum eigum.
Nú er farin af stað brunaútsala á erlendum eigum allra íslenskra fjármála og eignarhaldsfélaga. Í því árstandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum heimsins er ekki við því að búast að mikið fáist upp í 100% lánin sem tekin voru til að kaupa dótið.
Það liggur í augum uppi að viðskipti hefjast aldrei aftur með hlutabréf þeirra fyrirtækja sem stöðvuð voru á mánudagsmorgun. Menn geta svo sem prófað, ef þeir vilja sjá félag hverfa á einum degi.
FME og fjármálaráðuneytið ætti að sjálfsögðu að yfirtaka öll þessi félög strax ásamt Samson og nýta greiðslustöðvunartímann vel til að selja eignirnar með örlítið meiri yfirvegun en ráðrúm fæst til nú. Einnig eru til heimildir til að framlengja greiðslustöðvun.
Ef allir útrásargæjarnir eru nú á þönum við að selja allar seljanlegar eigur sínar er hætt við að öngþveiti skapist. Kaupendurnir bíða varla í það löngum röðum að búast megi við umframeftirspurn.
Exista tapaði 1,4 milljörðum evra á Sampo-sölunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2008 | 12:22
Bankabókin með hæstu vextina, Ísland.
Já, nú eru allir að taka út peningana sína af bankabókinni "Ísland" og ansi fáir að leggja inn á sama tíma. Því fer sem fer.
Og það sem er mesta hættan fyrir okkur íslendinga er að enskir séu að gera það sama, nú á þessum mínútum. Þ.e hvort viðskiptavinir íslensku bankanna í UK séu farnir að forða innistæðum sinum úr bönkunum. Þá getur ekkert bjargað (framlengt) lífi bankanna.
Síðastliðinn vetur talaði ég um hér á þessari bloggsíðu minni að ég vildi moka þessum innistæðum út úr landinu strax og hætta að hafa vexti sem aðal útflutningsvöru þjóðarinnar, þó Euro færi við það í 160 krónur. En hún er komin þangað nú þegar.
Hvar endar hún þegar þessir 277 milljarðar fara líka.
Krónubréf að nafnvirði 29 milljarðar á gjalddaga í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2008 | 00:58
En hvernig er það...
er ríkið orðið ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum Glitnis sem 75% eigandi.
Er einhver með það á hreinu.
Og ég er með frábæra samsæriskenningu til viðbótar öllum hinum!
Nú fara Jón Ásgeir, Mái og félagar á stúfana, alveg brjálaðir, og finna erlendan banka til að kaupa 75%in á aðeins hærra gengi en Dabbi ætlar. Þannig geta þeir náð sér niður á Dabba og þeim sem hann ætlar að afhenda Glitni.
En hvar ætli finnist banki sem á 86 milljarða?
18.9.2008 | 17:22
Stærðfræðin
Eru menn að byrja aftur að nota formúluna sem segir að tveir mínusar verði plús. Þetta var mikið notað hér á landi þegar verið var að sameina sjávarútvegsfyrirtækin sem rekin höfðu verið með tapi í mörg ár.
Í dag eru árlegar tekjur sjávarútvegsins um 1/4 af heildar skuldunum.
Morgan Stanley og Wachovia í samrunaviðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2008 | 22:32
Lykilatriði frjálshyggjustjórnunar.
Uppá síðkastið, meðan hrunadans frjálshyggju-stjórnkerfis vesturlanda heldur sínu striki, hef ég reynt að leiða hugann í heimspekilegar vangaveltur um hvernig stjórnkerfi þrífast og hverju þeir sem þar ráða, beita til að halda andliti gagnvart borgurunum, og þar með til að halda völdum.
Öll könnumst við við upphaf og endi ýmissa stjórnkerfa síðustu alda, t.d kommúnisma Austur Evrópu, eða Þriðja ríkis Hitlers, og vitum að þar var ýmsum ófögrum meðulum beitt til að koma böndum á almúgann. Í stjórnkerfi samfélags þurfa jú að vera tiltæk ráð til að fá almenning til að sætta sig við ástandið.
Eftir að hafa fylgst náið með aðferðum valdhafa (auðvaldshafa) vesturlanda, síðustu mánuði hef ég áttað mig á því hvernig einn þáttur virðist vera sameiginlegur öllum stjórnkerfum, en það er lygin og fegrunin.
Lygin og fegrunin virðast vera svo nauðsynleg öllum valdhöfum að ekkert stjórnkerfi, land , lndsvæði virðist geta komist af án svona vinnubragða, og þá allra síst þegar kreppir að hugmyndafræðinni sem viðkomandi hefur boðað.
Það er í raun talsvert broslegt þegar maður hugsar út í hve lífsnauðsynleg lygin og fegrunin er þeim Geir H Haarde, Róbert Mugabe eða Kim Il Sung , og svo auðvitað óteljandi öðrum valdhöfum vítt um heim.
En höldum okkur heima við og rifjum upp nokkur atriði.
Sennilega hefur engin lengur tölu á þeim skiptum sem forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar hefur komið fram í fjölmiðlum og tilkynnt okkur almúganum að hér sé allt í góðu og þessar smávægilegu þrengingar sem nú ganga yfir verði úr sögunni á næstu mánuðum. Síðast í gær tjáði þessi ábyrgðarfulli rólyndismaður okkur að gjaldþrot Leman Brothers og AIG kæmi ekki til með að hafa nokkur áhrif hér á landi. Allir fréttamenn hlustuðu andaktugir á eintalið og ekki virtist nokkur þeirra láta hvarfla að sér að benda manninum á að allt síðastliðið vor talaði hann um að þessum þrengingum linnti í haust og allt færi i samt lag og áður. Nú er haustið komið og öllum þrengingunum á að linna í síðasta lagi í byrjun næsta árs, þegar áhrifanna af þessum vandamálum erlendis hættir að gæta.
Utanríkisráðherrann okkar staldraði augnablik við um daginn og gaf sér tíma til að fara í viðtal hjá Viðskiptablaðinu. Ekki vantaði fyrirögnina. "Hér er engin kreppa". Í löngu viðtali var tíundað hve stutt væri í að allt kæmist hér í samt lag og engin þyrfti að hafa áhyggjur af nokkrum hlut.
Allir leggjast á eitt. Þ.e.a.s þeir sem hagsmuna hafa að gæta. "Valdhafarnir" í víðum skilningi. Í Viðskiptablaðinu var viðtal nýlega við forstjóra steypustöðvar. Steypustöð þessi er nýlega endurreist flak , gjaldþrota samsteypu sem einn viðskiptabankanna hirti á meðan skuldir þrotabúsins lentu á byrgjum og jafnvel viðskiptavinum. Allt var í lukkunnar hjá manninum. Að vísu áttu þeir nýbyggðar íbúðir til næsta 18 mánaða en þar sem húsnæðismarkaðurinn er nú rétt í þann mund að rúlla af stað aftur, þá er það ekkert til að tala um. Framundan bara eintóm hamingja.
Og fjölmiðlarnir, úff. Enn er lapið upp úr sama rugludallaliðinu sem ekki hefur undan að éta ofan í sig fyrri þvælu. Greiningadeildirnar, bankastjórinn sem í janúar tjáði okkur það álit sitt að hlutabréf myndu hækka um 20% á árinu, forstjóri steypustöðvarinnar sem ekki einu sinni virðist gera sér grein fyrir því að hræið sem hann stjórnar var endurvakið með því að láta aðra drukkna, ráðherrarnir sem fljótlega munu tjá okkur, í þriðja skipti á árinu, að þeir bara trúi því ekki að bankarnir séu að láta krónuna falla, og jafnvel stjórnarformaðurinn sem keypti svo verðlaust fyrirtæki að 12 mán seinna tók því ekki lengur að hafa það á bókum félagsins, enginn virðist vera það ómerkilegur pappír að ekki taki því að leyfa honum að tjá sig, og það helst á nokkurra íþyngjandi spurninga.
Framkoman við okkur almenning er á þann veg að viðkomandi telji okkur fífl. Á meðan allt hagsmuna stóðið keppist um að þvaðra hvert upp í annað, og lepja þvæluna hvert eftir öðru , þá situr þjóðin hálf hvumsa hjá og segir fátt. Horfir á skjáinn og hefur ekki brjóst í sér til að segja beint út "Geir við vitum að þú ert að ljúga" þó við hugsum það öll einhverstaðar djúpt í meðvitundinni. Og við sjáum falska glampann í augunum á Ingibjörgu á dagblaðssíðunni og hugsum það sama.
Trúverðugleiki almennings er í góðu lagi. Fólkið í landinu hefur gengist við því að hafa farið offari í kaupgleði og eyðsluæði undanfarin ár. Gerir sér grein fyrir að nú sé komið að afborgunum og að þær verði sársaukafullar.
En annað má segja um stjórnendur viðskiptalífs og þjóðfélags. Með linnulausum lygum og fegrunaraðgerðum skapa þeir sér hratt vaxandi fyrirlitningu fólksins. Háðið í umræðunni fer ekki fram hjá nokkrum sem fylgist með fjölmiðlum götunnar. Blogg, heitir pottar og kaffistofur óma af slíku tali.
Furðulegur þessi skortur á valdhafavirðingu á Íslandi.
27.4.2008 | 11:29
Sigling þjóðarskútunnar.
Enn er sami kúrsinn. Stefnunni haldið óbreyttri þó allir viti að framundan er þverhnípt bjargið og þar fram af ótal sker og boðar sem sveigja þyrfti framhjá. Brymið lemur bæði boða og bjarg og bíður skútunnar. Skipstjórinn og stýrimaðurinn virðast nokkuð sammála um að halda óbreyttri stefnu og ferð. Samkvæmt siglingareglum eiga þeir sem eiga réttinn að halda ferð og stefnu óbreyttri, svo hinn sem á á víkja geti ákveðið sínar aðgerðir út frá þeim forsendum. Það kostar samt oft neyðarviðbrögð þess fyrrnefnda, geri hinn ekkert í málinu. Ríkisstjórn Íslands telur sig eiga réttinn gagnvart bæði skerjunum og bjarginu.
Í vélarúminu situr vélstjórinn og skipar kyndurunum að moka meira og hraðar. Jafnvel þó ganghraðinn hafi aldrei verið meiri. Vélarnar eru úttútnar, á yfirþrýstingi, og eiga ekkert eftir nema springa út eins og ísskápur í Vesturbænum. Allur búnaðurinn á dekkinu er að hætta að virka vegna yfirkeyrslu aðalvélarinnar. Þrýstingur á glussakerfi og spennan á rafmagninu eru að ganga frá öllum tækjum og tólum sem hásetarnir nota við vinnu sína.
Einstaka háseti er farinn að tuða. Nokkrir hafa tekið sér stöðu í hurðaropum og sest í stigana og neitað að hleypa öðrum framhjá. Þeir kvarta þó ekki yfir stefnunni á skútunni, þó þeir sitji stundum fram í stefni og horfi á bjargið nálgast. Nei, nei, þeir vilja fá hengirúm á dekkið svo þeir geti lagt sig á daginn og finnst verðið á myglaða mjölinu vera orðið allt of hátt.
Skipstjórinn og stýrimaðurinn fara oft á léttabátnum yfir í hin skipin sem eiga leið hjá, en stefna allt annan kúrs. Léttabáturinn er í töluverðri notkun. Skipstjórinn hefur þó alltaf á sér eyrnahlífar í slíkum ferðum. Honum leiðist umhyggjusamt tuldur annarra skipstjóra , hvort við viljum ekki frekar fylgja flotanum sem reynir að beygja frá bjarginu. Eyrnahlífarnar fékk hann lánaðar hjá vélstjóranum, vélstjórar eiga yfirleitt mikið af eyrnahlífum.
Talstöðin er þannig stillt að búið er að lækka niður í hátalaranum. Þá er hægt að kalla og senda boð í hin skipin, og bjóðast til að taka sæti í forustusveitinni, en það heyrist ekkert sem sent er til baka. Aðvörunarorð frá hinum skipunum um slæma stefnu voru orðin leiðinleg og oftast bara illgjarn áróður.
Neðan úr neðstu lestinni eru þó farnar að heyrast háværar kröfur um að það þurfi að breyta einhverju. Jafnvel tillögur um að fylgja stóra skipaflotanum sem er rétt hjá og stefnir í aðra átt. Fara bara aftast í röðina hjá þeim og fá þar skjól fyrir veðri og vindum. Þeir hafi líka farið þessa leið í mörg hundruð ár.
En stýrimaðurinn nær engu sambandi við skipstjórann, svo þykk eru eyrnaskjólin. Skipstjórinn er líka trúaður maður og veit að einhvernvegin mun hann komast yfir það sem framundan er, skítt með hvernig hásetunum reiðir af. Þeir í neðstu lestinni munu kannski fara illa þegar botninn fer úr skipinu á skerjunum en hann er ekki þar niðri. Hans staður er mikið ofar og skipið afturbyggt, þannig að hann verður ekki heldur fyrir hnjaski í árekstrinum við bjargið.
Skipstjórinn hefur líka öruggan stuðning vélstjórans. Vélstjórinn hefur hótað að ef vælukórinn haldi sig ekki á mottunni muni hann skipa kyndurunum að moka enn meira og hraðar, kolunum í katlana.
En við skríllinn eigum þó enn von. Við eigum alltaf von. Þeir á stóra skipaflotanum eiga langan kaðal og eru ekkert svo langt undan. Í raun undarlegt hvernig bilið minnkar jafnt og þétt þó stefnt sé í sitt hvora áttina. Að lokum munum við biðja þá að koma til okkar með endann á kaðlinum, Það verður þegar allur búnaðurinn um borð hjá okkur verður brunninn yfir og úrbræddur og aðalvélin sprungin.
En það væri nú skemmtilegra að koma siglandi til hafnar með hinum skipunum, fyrir eigin vélarafli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2008 | 16:46
'I fyrsta lagi....
...það þurfti ekkert að veðja á fall krónunnar, bara bíða eftir því. Forsætisráðherra sagði á dögunum að allir hefðu búist við gengislækkun krónunnar þegar framkvæmdum á Austurlandi lyki.
Í öðru lagi.
Villidýrin á sléttunni ráðast alltaf á veikasta einstakling hjarðarinnar, það er eðli náttúrunnar.
Ef bjánarnir sem stjórna fjármálum þjóðarinnar eru búnir að gera okkur að veikasta dýrinu, þýðir ekkert að skamma villidýrin.
Það er bara viðurkenning á því að þeir séu bjánar.
Vildi gera Ísland gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2008 | 02:57
Enn um efnahagsmálin.
Þá er nú líklega tími til kominn að fárast meira yfir miður bjartri framtíð efnahags þjóðarinnar. Frá því ég tjáði mig síðast hefur margt skondið og skemmtilegt gerst, fátt upplífgandi, og ekkert sem greiningadeildir bankanna spáðu fyrir.
En svona tímaleysi kemur þegar maður er upptekinn við vinnu. Ég hef komist að því að vinnan tekur frá manni allan tíma sem annars væri hægt að nota til skemmtilegri hluta, eins og t.d að skemmta sér yfir ástandinu í efnahagsmálunum. Þeir sem eru viðkvæmir verða bara að hafa mig afsakaðan, ég get ekki orðið annað en hlegið að þessum skrípaleik. Og það þó svo erlenda gjaldeyrislánið mitt hafi hækkað um 18%, bara frá áramótum. (tek það fram að þetta er ekki margra milljóna húsnæðislán, og gerir ekki útaf við mig hvort eð er)
En hvernig er annars staðan?
Hlutabréfin hafa haldið áfram að lækka. Skuldatryggingaálag íslensku bankanna hefur haldið áfram að hækka. Íslenska krónan er byrjuð að falla. Lánshæfismat þjóðarinnar versnar. Vöruverð er byrjað að hækka. Verðbólgan er farin af stað og byrjuð að éta upp allar nýju launahækkanirnar. Húsnæðið byrjað að lækka í verði, það litla sem selst, og eflaust fylgja á eftir hjólhýsin, sumarbústaðirnir og allar hinar græjurnar sem keyptar voru á lánum.
En þá er gott að geta gengið að allavega einu vísu. Greiningadeildir íslensku bankanna halda áfram að spá þvælu.
Og hvað gera stjórnvöld og forráðamenn bankanna? Ekki neitt? jú jú.
Geir heimsækir Nasdaq, Seðlabanki Davíðs gætir að trúverðugleika sínum og Solla flýr til Afganistan, telur líklega að það verði friðvænlegra þar næstu misseri. Tveir ungir "frjálshyggjupostular" skrifa heilsíðu grein í blað þar sem þeir tiltaka hvað Ríkið eigi að gera til að bjarga málunum. Kannski þeir hefðu sótt um ritlaun frá Ríkinu, væru þeir ekki á launum þar fyrir. Og formaður bankaráðs Seðlabankans skrifar blaðagrein, um Biblíuþýðingu, eins og Sveinn bloggfélagi minn bendir svo skemmtilega á í sínu bloggi.
Sigurður Einarsson breytir "upplýsingaútrásinni" sem ákveðin var fyrir skömmu, í skammarræðu í Kaupmannahöfn þar sem þeir örfáu blaðamenn sem nenntu að mæta voru að springa úr hlátri. Svo sitja þeir allir félagarnir, bankastjórarnir, saman á fundi vestur í USA og upplýsa þarlenda fjárfesta um dásemdir íslenska efnahagslífsins. Daginn eftir hækkar skuldatryggingaálagið.
Ég held að þeir kumpánarnir ættu bara að slá "upplýsingaútrásina" af. Eftir hvern fundinn versnar ástandið. Íslenskur banki sem í haust staðhæfði að þeir væru ekki í neinni hættu vegna bandarískra skuldabréfavafninga eru nú skyndilega orðnir hluthafar í sjóði sem á sjóð sem á sjóð sem er að fara á hausinn af því að fólkið sem platað var í húsbréfapókerinn þar vestra vill fá peningana sína strax. Við munum aldrei tapa nema 2,5 miljörðum tilkynnir upplýsingafulltrúinn. Lætur ógert að upplýsa hvaða áhrif tapið kæmi til með að hafa á eiginfjárstöðu bankans.
En einhver glæta hlýtur að sjást. Jú það er farið að rofa til hjá einhverjum greinandanum úti í heimi sem nú hefur uppgötvað að líklega sé ekki bara um lausafjárkreppu banka að ræða heldur gæti verið um að ræða greiðslugetu vanda hjá almenningi. Það var og. Betra seint en aldrei.
Þegar við verðum búinn að viðurkenna vandann, þá meina ég okkur Íslendinga, það er að við höfum einfaldlega eytt langt um efni fram undanfarin ár, höfum haft bjálfa við stjórnun peningamála þjóðarinnar og áttum okkur á því að bankaútrásin skilaði okkur engu nema skuldum, þá og fyrst þá verður hægt að fara að takast á við verkefnið.
Þetta hef ég margreynt. Þegar báturinn er kominn upp á skerið þýðir ekkert að djöflast með skrúfuna afturábak og áfram á fullri inngjöf. Allra síst þegar helvítis skrúfan nær varla ofan í sjó lengur. Þá er betra að sparka bara geðillskulega fast í þilið og bölva hressilega, en drattast svo í að gera vitlegar ráðstafanir til að ná honum niður af skerinu.
Það verður að horfast í augu við orðinn hlut og fara að gera ráðstafanir strax. Við verðum að losna undan áþján íslenskra stjórnmálamanna, engir þeirra hafa getað stjórnað efnahagsmálunum í áratugi. Það þarf að sækja um aðild að EURO myntbandalagi strax, þó það kosti Sambandsaðild. Þangað til þarf að fasttengja krónuna við EURO. Það þarf að moka út úr Seðlabankanum og selja húsnæðið, það er á góðum stað og vel byggt.
Persónulega vil ég moka krónubréfunum út úr landinu strax á morgun. Þó það kosti að EURO fari í 160 krónur eða meira, hún fer þangað hvort eð er á endanum. Það er bara best að taka skellinn strax. Ég er orðinn leiður á að aðal útflutningsvara þjóðarinnar séu vextir.
Undanfarið hef ég verið hugsi um hvort olíuhreinsunarstöð og álver í Helguvík gætu hjálpað okkur í gegnum kreppuna en veit þó ekki hvort það væri ráðlegt. Slíkar framkvæmdir kalla á innflutning og miklar fjárfestingar. Byggingatímann yrði að nota af mikilli yfirvegun til að takast á við timburmenn síðustu stórframkvæmda. En það getur íslensk þjóð ekki, hún færi strax á fyllirí aftur.
Því hef ég betri lausn. Við eigum auðlindina sem gerði okkur að ríkustu þjóð í heimi á 80 árum. Setjum á fastan 200 þús tonna ársafla í loðnu til næstu ára og veiðum hana eingöngu í dýrustu manneldisafurðirnar. Leyfum þorskinum að éta restina.
Setjum svo á 350 þús tonna þorskkvóta til sama tíma. Ég hef engar áhyggjur af því að við eigum ekki inni fyrir því, þó svo að Hafró hafi verið að úthluta síðustu þorskunum í 20 ár. Þeir munu hvort eð er verða í sama hlutverki næstu 20 árin.
Kosturinn við þessa innspýtingu í efnahagslífið er að það þarf ekki að fjárfesta eina krónu til að ná markinu. Sá floti sem við höfum í dag nær þessum afla auðveldlega án nokkurs aukakostnaðar.
Það getur verið jafn dýrt að forðast þorsk og að eltast vil þorsk.
Neikvæðar horfur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.2.2008 | 21:11
HAHAHA
Eins og það trúi því nokkur heilvita maður að Welding hafi tekið þessa ákvörðun sjálfur. Eins og frekjugangurinn í Máa, gagnvart skipstjórnar og vélstjórnar mönnum sínum hefur verið gegnum tíðina, þá tek ég því nú með fyrirvara.
Auðvitað skikkaði hann manninn til að lækka launin sín og ekkert múður, annars fengi hann að fjúka. Það væri nú ekki beinlínis fyrsti yfirmaðurinn sem færi þá leið hjá Samherjaforstjóranum.
Annars styð ég Máa heils hugar. Er bara svekktur að geta ekki verið fluga á vegg, fundarherbergis Glitnis. Þó hann geti verið frekur og stundum ósanngjarn í kröfum gagnvart þeim sem starfa hjá honum þá á frekjan bara stundum vel við.
En þessi launalækkun er eiginlega bara kvittun fyrir þeirri niðurlægingu sem útrásar forkólfarnir hafa orðið að kyngja undanfarið. Það sem Þorsteinn Már hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum, eftir að hann var kjörinn í stjórn Glitnis, er ekkert annað en að lýsa frati í þá menn sem hafa stjórnað ferðinni undanfarið, bara orð í sparifötum. Og þeir bara kyngja öllu.
Til að taka af öll tvímæli vil ég mynna á að samkvæmt fréttum þá kvaddi Þorsteinn Már sér hljóðs á aðalfundinum umrædda, eftir að tillaga kom fram um óbreytta þóknun til stjórnarmanna, og bar fram nýja tillögu um helmings lækkun. Það virtist ekki sem nokkur þeirra sem fyrir voru hefðu hugsað sér slíka gjörninga.
Og þetta segir okkur annað. Nú er róinn lífróður. Og lífróður snýst um að lifa af, er upp á líf eða dauða. Það er ánægjulegt að vita að í stjórnarformanns stól, allavega eins bankans, sé kominn maður sem gerir sér grein fyrir þessu. Það virðist vera að renna upp fyrir mönnum að það dugi ekki að hafa eigið fé handbært til að tóra nokkra mánuði. Skuldatryggingar álagið, sem gerir bönkunum ómögulegt að fjármagna sig, er ekki eitthvað sem varir í fáeina daga. Það þýðir ekkert að segjast eiga fyrir öllum skuldbindingum þessa árs, því á eftir 2008 kemur 2009. Engin alvöru fjármálakreppa hefur varað svo stutt að áhrif hannar hafi fjarað út á nokkrum mánuðum.
En sem betur fer virðast sífellt fleiri vera að vakna. Er þar nýjast margrædd blaðagrein tveggja stjórnarþingmanna í Morgunblaðinu. En það verður efni í annað blogg, og bíður betri tíma.
Helmingar laun sín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2008 | 23:34
Ég þoli ekki orðið "skuldatryggingarálag".
En það er í lagi ef það er bara notað á íslensku, þá skilja útlendingar ekki þegar menn eru að gera sig að fíflum fyrir málstaðinn.
Reynum nú að vera með aðeins minni þjóðrembing og svolítið af vitiborinni hugsun.
Byrjum á að kryfja skuldatryggingarálag íslensku bankanna.
Samkvæmt frétt og hrikalega flottu grafi í Morgunblaðinu í dag (28.feb 2008)
Meðaltal fjölda erlendra banka 1,00%
Landsbanki Íslands 3,25%
Glitnir 5,60%
Kaupþing 6,10%
ATH að þetta er bara tryggingarálag, viðbót við venjulega vexti, svo eru menn að grenja um hvort Seðlabankinn lækki Stýrivexti um hálft eða heilt prósent.
"Íslandsálagið" getur fjandakornið ekki verið hærra en álag þess banka sem lægst hefur, þ.e Landsbankans = 3,25. Forstjóra Glitnis hefði verið nær að varpa fram þeirri spurningu hvers vegna bankinn hans væri svona langt yfir Íslandsálaginu, hvort það gæti tengst starfsbyrjunarsamningi hans sjálfs, eða annarri óráðsíu að kenna. Þessi hallærislega tilraun til að láta í það skína að allir íslensku bankarnir sitji við sama borð er frekar brjóst-um-kennanleg.
Á vormánuðum 2006 fengu íslenskir bankar gríðarlega gagnrýni frá "öfundsjúkum" Dönum. Öll var þessi gagnríni byggð á skorti á upplýsingum, (að okkar mati) sem brugðist var við með því að funda vítt um heim og kynna íslensku útrásina og töframátt hennar. Allt féll í ljúfa löð og sjálfumglaðir Íslendingar tóku að berja sér á brjóst og benda á að ekkert af því sem danskir "öfundarmenn" sögðu, hefði staðist. Nú flæddu upplýsingarnar um allan heim og enginn misskilningur ætti að geta komið upp aftur.
En bíðum nú aðeins: Eitt smáatriði virðist hafa gleymst í sjálfumgleðinni. Gagnrýnendur bentu á að illa gæti farið þegar hlutabréf tækju að falla í verði. Kannski hafa þjóðrembingarnir orðið svo reiðir við fyrirsögnina að þeir hafa gleymt að lesa greinina sem á eftir kom og því aldrei frétt af þessu smáatriði. Ég fæ nú ekki betur séð en að það sem varað var við þá, sé allt að ganga eftir núna.
En þá bregður svo við að enn vantar þessa útlendinga, betri upplýsingar. Og nú er vitneskju-skorturinn svo mikill að það þarf ríkisstjórnina sjálfa, til að ganga í lið með bönkunum, og gera eitt allsherjar útrásarátak í upplýsingagjöf.
En ósköp er ég nú hræddur um að upplýsingaútrásin fari jafn illa og bissness útrásin, ef af henni verður. Ekki viss um að margir nenni nú að koma á fundina til að hlusta.
Svona í lokin er líka gott að reyna að átta sig á hvað gæti valdið vantrú erlendra aðila á íslensku bankana. Og hafa í huga að vantrúin gengur alls ekki jafnt yfir þá alla. Það skildi þó ekki vera að finna megi mikla samsvörum með því ástandi sem okkur hefur verið tjáð að ríki í Bandaríkjunum, og íslensku efnahagslífi.
Komið sé að skuldadögunum.
Skuldatryggingarálagið allt of hátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)