Færsluflokkur: Bloggar

Hver á kvótann?

 Ætli mann greyið sé að átta sig á því að allar veiðiheimildir þjóðarinnar eru hvort eð er, nú þegar, veðsettar í EU þannig að þegar gengið verður að gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtækjum, á næstu mánuðum, þá höfum við ekkert um það að segja hvað þeir gera við kvótann.

 Manni skilst að fyrstu fyrirtækin standi ekki af sér, ef gjaldmiðla skiptasamningarnir verða gerðir upp á óhagstæðu gengi dagsins í dag. Annars hélt ég að framvirkir gjaldmiðla skiptasamningar væru áhættuviðskipti fyrir fjármálaspekúlanta en ekki aukastarf fyrir fjármálastjóra fyrirtækja sem flaka og selja fisk.


mbl.is Uppgjör þarf að fara fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilldar hugmynd

Það á að drífa í þessu strax, áður en Sjálfstæðisflokknum tekst að raða sínu liði aftur þar sem þeir hafa ítök til að færa bankana í hendur "réttra" aðila aftur. Það á að gera þetta við alla bankana þrjá. Ganga til samninga við stærstu skuldaeigendurna um að koma inn sem eigendur. Þannig björgum við gríðarlegum verðmætum (allavega fyrir skuldaeigendurna) og leggjum okkar að mörkum til að forða heimskreppunni sem reyndar virðist vera óumflýjanleg. Lánadrottnar gömlu bankanna þyrftu þá allavega ekki að afskrifa íslenska pakkann alveg strax.

En það besta er að sjálfsögðu að íslenskur almenningur yrði laus við "innanríkispólitískt" stjórnað bankakerfi. Og gleymum ekki hvað þetta hefði bætandi áhrif á ímynd og sálarástand þjóðarinnar, allavega þann hluta hennar sem finnst þeir, fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda, vera orðnir alþjóðlegir vanskilamenn.


mbl.is Danskur banki yfirtaki Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lán í öllu óláninu.

 Þvílík himnasending þessi ummæli breska forsætisráðherrans. Það er algjörlega með ólíkindum hvað við vorum heppin sem þjóð að maðurinn skildi glopra þessu út úr sér. Þó ég sé almennt ekki trúaður á réttlæti heimsins er ég algjörlega sannfærður um að þetta er fjárhagslega björgunin sem Ísland þarf á að halda. Við munum fá skaðabætur frá breskum stjórnvöldum sem duga fyrir mestu af skuldum okkar erlendis.

 Eða þá lánið fyrir Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur ekkert annað náð inn í fréttatíma þjóðarinnar síðustu fjóra daga. Allir búnir að gleyma aðdraganda bankahrunsins og því hver var Fjármálaráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir og hverjir hafa setið í forsvari fyrir Ríkisstjórnum Íslands síðustu 17 árin.


mbl.is Ríkið íhugar að fara í mál vegna Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skipta (ekki) um fólk í brúnni.

 Maður verður eiginlega bara hræddur að vita til þess að þessi maður sé úti í löndum að semja við Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn fyrir hönd þjóðarinnar. Hann er búinn að vera ráðherra í mörg ár ,og núverandi fjármálaráðherra, og flokkur hans í stjórn í 17 ár.

Og ekki minkar óttinn þegar maður les ummæli varaformannsins í Fréttablaðinu í dag.

"Bankakerfið og erlendar fjárfestingar hafi skilað Íslendingum mikilli búbót á undanförnum árum og ungt og vel menntað fólk hefur getað gengið að krefjandi og vellaunuðum störfum nær vísum"

Konan situr í miðjum rústum íslensks efnahagslífs, sem hrunið er til grunna fyrir tilstuðlan einkavæðingar bankanna og erlendra fjárfestinga þeirra og lætur þetta út úr sér. Hún hefur sett komandi kynslóðir samfélagsins í skuldafjötra um ókomin ár og gert gjaldþrota ótal einstaklinga sem ekkert hafa gert af sér annað en það að trúa að stjórnvöld hafi það hlutverk að halda stöðugleika í landinu.

Maður verður óttasleginn þegar maður sér hversu veruleikafirrt þetta fólk er sem við höfum enn ekki séð ástæðu til að reka úr vinnu hjá okkur.

 Þegar ég verð stór, þá ætla ég að kaupa mér stórt skemmtiferðaskip og sigla um með eintóma íslendinga sem farþega. Ég get augljóslega treyst því að sama hvaða vitleysu ég geri sem skipstjóri þá mun eingin æmta né skræmta hvað þá fara fram á að einhver annar taki við í brúnni.


mbl.is Fundað stíft með IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin.

 Sennilega hefur framtíð Exista aldrei verið ljósari en nú. Það er hins vegar mesta áhyggjuefnið hvort búið hefur verið að skuldsetja dótturfélögin í botn vegna útrásargræðginnar. Það kemur til með að skera úr um hvort við eigum starfhæf gömlu "góðu" fyrirtækin, þegar uppgjörið hefur farið fram.

 Það er nóg framundan fyrir almenninga í landinu þó við þurfum ekki líka að fara að vasast með vandamál eins og að færa allar tryggingar, síma o.s.v.

 Þetta með fjármunatapið! Segi sem minnst um það. Best að bíða og sjá þegar skiptauppgjörið kemur fyrir almenningssjónir. Þá kemur í ljós hvert raunvirði eignanna var, ekki hvað eigendurnir ákváðu að verðmeta þær á, til að laga eiginfjárstöðuna.

Mynni bara á að Lehman Brothers var með skráð eigið fé upp á hundruð milljarða dollara en var keypt eftir gjaldþrotið á tvo. Viðskiptasérfræðingar byrjuðu með það sama að tala um hvort það hafi verið of hátt verð.

 Og bíðum svo bara þess tíma þegar við verðum aftur farin að agnúast út í "gömlu góðu fyrirtækin", VíS, Símann, Sjóvá, Hagkaup, olís, ÍA, Hagvirki, (nei þeir koma nú sennilega ekki aftur) ESSO o.s.v.

Þegar við náum þeim tímapunkti að geta hringt í NÝJU þjóðarsálina til að fárast yfir þeim, þá verður það augljóst merki um að íslensk þjóð sé komin á réttan kjöl aftur.


mbl.is Allt traust virðist horfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki að okkur íslendingum að spyrja.

 Þegar alsherjahrun hagkerfis vesturlanda gengur yfir þá þurfum við að sjálfsögð líka að vera fyrstir.

 Fólk þarf ekki að vera að eyða tíma í að hugsa um "kalda stríðið" milli UK og íslands. Fljótlega hafa tjallarnir um verulega mikið annað að hugsa en þessar örfáu millur sem töpuðust á Íslandi. Við gleymumst algjörlega í öllu hinu fárinu.

Leiðtogar allrar Evrópu eru ekki að funda neyðarfundi upp á grín. Hagkerfi vesturlanda er á svipaðri bjargbrún nú í dag og Kaupþing var á þriðjudaginn. Uppskrúfuð gervihagvaxtar, skuldsetninga/veðsetninga hagkerfi hrynja að lokum. Það hefur alltaf verið ljóst, og auðséð þeim sem bara hafa nennt að hafa fyrir því að leita sér smávægilegra tölfræðiupplýsinga sem nú fást nánast allar á internetinu góða.

 Svo gildir það sama þar og í dómssalnum. Að hlusta ekki bara á það sem annar aðilinn hefur fram að færa. Nútíma upplýsingaheimur hefur mörg síðastliðin ár verið fullur af viðvörunarorðum sem enginn hefur viljað hlusta á. Það sorglegasta af öllu er að framsetning þeirra sem varað hafa við undanfarið, hafa verið studd verulega betri gögnum og tilvitnunum en hinna sem alltaf töldu bara að nóg væri að koma fram í fjölmiðli, brosa og segja að allt væri í lagi.

En það virðist vera vinsælla að horfa á brosandi andlit en að afla sér tölulegra staðreynda.


mbl.is Verðhrun á Evrópumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærðfræðin

Eru menn að byrja aftur að nota formúluna sem segir að tveir mínusar verði plús. Þetta var mikið notað hér á landi þegar verið var að sameina sjávarútvegsfyrirtækin sem rekin höfðu verið með tapi í mörg ár.

Í dag eru árlegar tekjur sjávarútvegsins um 1/4 af heildar skuldunum.

 


mbl.is Morgan Stanley og Wachovia í samrunaviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigling þjóðarskútunnar.

Enn er sami kúrsinn. Stefnunni haldið óbreyttri þó allir viti að framundan er þverhnípt bjargið og þar fram af ótal sker og boðar sem sveigja þyrfti framhjá. Brymið lemur bæði  boða og bjarg og bíður skútunnar. Skipstjórinn og stýrimaðurinn virðast nokkuð sammála um að halda óbreyttri stefnu og ferð. Samkvæmt siglingareglum eiga þeir sem eiga réttinn að halda ferð og stefnu óbreyttri, svo hinn sem á á víkja geti ákveðið sínar aðgerðir út frá þeim forsendum. Það kostar samt oft neyðarviðbrögð þess fyrrnefnda, geri hinn ekkert í málinu.  Ríkisstjórn Íslands telur sig eiga réttinn gagnvart bæði skerjunum og bjarginu.

Í vélarúminu situr vélstjórinn og skipar kyndurunum að moka meira og hraðar. Jafnvel þó ganghraðinn hafi aldrei verið meiri. Vélarnar eru úttútnar, á yfirþrýstingi, og eiga ekkert eftir nema springa út eins og ísskápur í Vesturbænum. Allur búnaðurinn á dekkinu er að hætta að virka vegna yfirkeyrslu aðalvélarinnar. Þrýstingur á glussakerfi og spennan á rafmagninu eru að ganga frá öllum tækjum og tólum sem hásetarnir nota við vinnu sína.

Einstaka háseti er farinn að tuða. Nokkrir hafa tekið sér stöðu í hurðaropum og sest í stigana og neitað að hleypa öðrum framhjá. Þeir kvarta þó ekki yfir stefnunni á skútunni, þó þeir sitji stundum fram í stefni og horfi á bjargið nálgast. Nei, nei, þeir vilja fá hengirúm á dekkið svo þeir geti lagt sig á daginn og finnst verðið á myglaða mjölinu vera orðið allt of hátt.

Skipstjórinn og stýrimaðurinn fara oft á léttabátnum yfir í hin skipin sem eiga leið hjá, en stefna allt annan kúrs. Léttabáturinn er í töluverðri notkun. Skipstjórinn hefur þó alltaf á sér eyrnahlífar í slíkum ferðum. Honum leiðist umhyggjusamt tuldur annarra skipstjóra , hvort við viljum ekki frekar fylgja flotanum sem reynir að beygja frá bjarginu. Eyrnahlífarnar fékk hann lánaðar hjá vélstjóranum, vélstjórar eiga yfirleitt mikið af eyrnahlífum.

Talstöðin er þannig stillt að búið er að lækka niður í hátalaranum. Þá er hægt að kalla og senda boð í hin skipin, og bjóðast til að taka sæti í forustusveitinni, en það heyrist ekkert sem sent er til baka. Aðvörunarorð frá hinum skipunum um slæma stefnu voru orðin leiðinleg og oftast bara illgjarn áróður.

Neðan úr neðstu lestinni eru þó farnar að heyrast háværar kröfur um að það þurfi að breyta einhverju. Jafnvel tillögur um að fylgja stóra skipaflotanum sem er rétt hjá og stefnir í aðra átt. Fara bara aftast í röðina hjá þeim og fá þar skjól fyrir veðri og vindum. Þeir hafi líka farið þessa leið í mörg hundruð ár.

En stýrimaðurinn nær engu sambandi við skipstjórann, svo þykk eru eyrnaskjólin. Skipstjórinn er líka trúaður maður og veit að einhvernvegin mun hann komast yfir það sem framundan er, skítt með hvernig hásetunum reiðir af. Þeir í neðstu lestinni munu kannski fara illa þegar botninn fer úr skipinu á skerjunum en hann er ekki þar niðri. Hans staður er mikið ofar og skipið afturbyggt, þannig að hann verður ekki heldur fyrir hnjaski í árekstrinum við bjargið.

Skipstjórinn hefur líka öruggan stuðning vélstjórans. Vélstjórinn hefur hótað að ef vælukórinn haldi sig ekki á mottunni muni hann skipa kyndurunum að moka enn meira og hraðar, kolunum í katlana.

En við skríllinn eigum þó enn von. Við eigum alltaf von. Þeir á stóra skipaflotanum eiga langan kaðal og eru ekkert svo langt undan. Í raun undarlegt hvernig bilið minnkar jafnt og þétt þó stefnt sé í sitt hvora áttina. Að lokum munum við biðja þá að koma til okkar með endann á kaðlinum, Það verður þegar allur búnaðurinn um borð hjá okkur verður brunninn yfir og úrbræddur og aðalvélin sprungin.

En það væri nú skemmtilegra að koma siglandi til hafnar með hinum skipunum, fyrir eigin vélarafli.

 

 


'I fyrsta lagi....

...það þurfti ekkert að veðja á fall krónunnar, bara bíða eftir því. Forsætisráðherra sagði á dögunum að allir hefðu búist við gengislækkun krónunnar þegar framkvæmdum á Austurlandi lyki.

Í öðru lagi.

 Villidýrin á sléttunni ráðast alltaf á veikasta einstakling hjarðarinnar, það er eðli náttúrunnar.

Ef bjánarnir sem stjórna fjármálum þjóðarinnar eru búnir að gera okkur að veikasta dýrinu, þýðir ekkert að skamma villidýrin.

Það er bara viðurkenning á því að þeir séu bjánar.


mbl.is Vildi gera Ísland gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HAHAHA

Eins og það trúi því nokkur heilvita maður að Welding hafi tekið þessa ákvörðun sjálfur. Eins og frekjugangurinn í Máa, gagnvart skipstjórnar og vélstjórnar mönnum sínum hefur verið gegnum tíðina, þá tek ég því nú með fyrirvara.

Auðvitað skikkaði hann manninn til að lækka launin sín og ekkert múður, annars fengi hann að fjúka. Það væri nú ekki beinlínis fyrsti yfirmaðurinn sem færi þá leið hjá Samherjaforstjóranum.

Annars styð ég Máa heils hugar. Er bara svekktur að geta ekki verið fluga á vegg, fundarherbergis Glitnis. Þó hann geti verið frekur og stundum ósanngjarn í kröfum gagnvart þeim sem starfa hjá honum þá á  frekjan bara stundum vel við.

En þessi launalækkun er eiginlega bara kvittun fyrir þeirri niðurlægingu sem útrásar forkólfarnir hafa orðið að kyngja undanfarið. Það sem Þorsteinn Már hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum, eftir að hann var kjörinn í stjórn Glitnis, er ekkert annað en að lýsa frati í þá menn sem hafa stjórnað ferðinni undanfarið, bara orð í sparifötum. Og þeir bara kyngja öllu.

Til að taka af öll tvímæli vil ég mynna á að samkvæmt fréttum þá kvaddi Þorsteinn Már sér hljóðs á aðalfundinum umrædda, eftir að tillaga kom fram um óbreytta þóknun til stjórnarmanna, og bar fram nýja tillögu um helmings lækkun. Það virtist ekki sem nokkur þeirra sem fyrir voru hefðu hugsað sér slíka gjörninga. 

Og þetta segir okkur annað. Nú er róinn lífróður. Og lífróður snýst um að lifa af, er upp á líf eða dauða. Það er ánægjulegt að vita að í stjórnarformanns stól, allavega eins bankans, sé kominn maður sem gerir sér grein fyrir þessu. Það virðist vera að renna upp fyrir mönnum að það dugi ekki að hafa eigið fé handbært til að tóra nokkra mánuði. Skuldatryggingar álagið, sem gerir bönkunum ómögulegt að fjármagna sig, er ekki eitthvað sem varir í fáeina daga. Það þýðir ekkert að segjast eiga fyrir öllum skuldbindingum þessa árs, því á eftir 2008 kemur 2009. Engin alvöru fjármálakreppa hefur varað svo stutt að áhrif hannar hafi fjarað út á nokkrum mánuðum.

En sem betur fer virðast sífellt fleiri vera að vakna. Er þar nýjast margrædd blaðagrein tveggja stjórnarþingmanna í Morgunblaðinu.  En það verður efni í annað blogg, og bíður betri tíma.

 


mbl.is Helmingar laun sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband